Svikapóstar sendir úr netþjóni FBI

J. Edgar Hoover-byggingin í Washington D.C, þar sem höfuðstöðvar FBI …
J. Edgar Hoover-byggingin í Washington D.C, þar sem höfuðstöðvar FBI eru til húsa. AFP

Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hefur hafið rannsókn vegna svikapósta sem sendir voru í nafni stofnunarinnar og er jafnvel talið að um netárás hafi verið að ræða.

Svo virðist sem brotist hafi verið inn í netþjóna stofnunarinnar og að þaðan hafi svikapóstarnir, alls 100 þúsund talsins, verið sendir.

Í frétt BBC um málið er haft eftir talsmanni FBI að uppákoman sé hluti af „áframhaldandi atburðarás, án þess að það sé nánar tilgreint.

Tölvupóstarnir sem um ræðir voru látnir líta út fyrir að vera sendir af hálfu þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna.

Í þeim var varað við yfirvofandi hættu og sagði orðrétt: „Áríðandi: Ógn í kerfinu.“

Enn fremur var viðtakendum tölvupóstanna sagt að þeir væru fórnarlömb háþróaðra keðjuverkunarárása frá glæpasamtökum sem köllum voru Dark Overlord. Þetta kom fram í tilkynningu frjálsu netöryggissamtakanna Spamhaus.

„Þetta er að valda miklum usla af því hausarnir [e. headers] eru ósviknir, þeir koma í alvöru frá innanhúskerfi FBI,“ sagði í færslu Spamhaus-samtakanna á Twitter.

Eins og fyrr segir gruna yfirvöld í Bandaríkjunum að um árás tölvuþrjóta hafi verið að ræða, en þó er ekki útilokað að einhver einstaklingur með aðgang að tölvukerfum Fbi hafi verið að verki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert