Austurríki varð fyrst Evrópuríkja til að setja á útgöngubann fyrir óbólusetta einstaklinga og sömuleiðis fyrsta Evrópuríkið til að hefja bólusetningu á börnum gegn Covid-19 allt niður í fimm ára. Til skoðunar er að setja á frekari aðgerðir til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar.
Nú eru 65 prósent Austurríkismanna bólusettir en það er undir meðaltali Evrópuríkja, en það er 67 prósent.
Takmarkanirnar á óbólusettum eru umdeildar, en mörg hundruð komu saman í Vínarborg, höfuðborg Austurríkis, í gær til að mótmæla.
„Þetta takmarkar líf mitt og frelsi mitt. Það er kominn tími til að fleiri tjái sig,“ sagði einn mótmælandi við fréttastofu AFP.
Yfirvöld í Vínarborg tóku á skarið í dag og byrjuðu að bólusetja börn á aldrinum fimm til ellefu ára en Lyfjastofnun Evrópu hefur ekki enn samþykkt bólusetningu fyrir þann aldurshóp.
Teiknimyndir af ninja-skjaldbökum og tígrisdýrum prýddu bólusetningarbása í dag. Borgaryfirvöld segja að búið sé að panta bólusetningu fyrir tíu þúsund börn.
Ríkisstjórn Austurríkis vonast til að ráðstafanir þeirra geti hefta frekari útbreiðslu veirunnar og sömuleiðis dregið úr álagi á gjörgæslu.
Deilur eru nú á milli ráðherra um möguleika á frekari aðgerðum, til dæmis um útgöngubann fyrir alla á kvöldin.