Bandaríski blaðamaðurinn Danny Fenster, sem var fyrir helgi dæmdur í ellefu ára fangelsi í Mjanmar, hefur verið látinn laus úr fangelsi.
„Frábærar fréttir. Var að frétta að Danny Fenster er frjáls,“ skrifaði Sonny Swe, útgefandi vefmiðilsins Frontier Myanmar, þar sem Fonster starfaði. Hann var einn fjölmargra blaðamanna sem handteknir voru eftir valdarán mjanmarska hersins í febrúar á þessu ári.
Herdómstóll í Mjanmar dæmdi hann í ellefu ára fangelsi fyrir brot gegn innflytjendalöggjöf og fyrir að hvetja til óeirða, sem beinast áttu gegn herstjórn landsins.
Samkvæmt frétt AFP verður Fenster vísað úr landi fljótlega.