Tvö börn, sem eru bæði yngri en tíu ára, fundust alvarlega slösuð í Hässelby í vesturhluta Stokkhólms í gær. Annað barnanna lést síðar af sárum sínum. Hitt er í lífshættu.
Tveir fullorðnir sem tengjast börnunum náið hafa verið handteknir grunaðir um morð og morðtilraun.
Börnin tvö fundust fyrir utan fjölbýlishús í Hässelby og voru þau flutt á sjúkrahús með þyrlu. Lögreglan telur að þau hafi fallið til jarðar úr mikilli hæð, að sögn SVT.
„Þau eru alvarlega slösuð,“ sagði talsmaður lögreglunnar, Helena Boström Thomas, í gærkvöldi. Tilkynning barst lögreglunni klukkan 22 að staðartíma í gærkvöldi og í morgun tilkynnti lögreglan að annað barnanna hafi látist af sárum sínum. Spurður hvort börnin hafi verið með áverka sem tengjast ekki fallinu sagðist talsmaður lögreglunnar í morgun ekki vilja tjá sig um það.
Fullorðinn einstaklingur sem tengist börnunum fannst slasaður í íbúð í gærkvöldi. Hann og annar fullorðinn voru handteknir í gærkvöldi og eru þeir núna í varðhaldi. Um er að ræða karl og konu.