Eitt alræmdasta bankarán Bandaríkjanna leyst

Sagt er að hann hafi notfært sér rýrt öryggi bankans …
Sagt er að hann hafi notfært sér rýrt öryggi bankans og gengið út með peningana í brúnum pappírspoka er útibúið lokaði á föstudagskvöldi. Ljósmynd/US Marshal Service

Borin hafa verið kennsl á glæpamanninn sem stóð á bak við eitt alræmdasta bankarán Bandaríkjanna eftir 52 ára leit. The New York Times greinir frá.

Ted Conrad starfaði sem gjaldkeri hjá Society National-bankanum í Cleveland í Bandaríkjunum þegar hann rændi vinnuveitanda sinn í júlí árið 1969. Hann hvarf sporlaust með 215 þúsund bandaríkjadali sem í dag samsvarar um 1,5 milljónum Bandaríkjadala eða rúmum 197 milljónum íslenskra króna.

Talið var að Conrad, sem lést af völdum lungnakrabbameins í maí, hafi lifað rólegu og yfirlætislausu lífi eftir að hann lét sig hverfa eftir ránið en hann var aðeins tvítugur þegar hann framdi það.

Heltekinn af mynd Steve McQueen

Sagt er að hann hafi notfært sér rýrt öryggi bankans og gengið út með peningana í brúnum pappírspoka er útibúið lokaði á föstudagskvöldi. Þegar aðrir bankastarfsmenn áttuðu sig á því að peningarnir væru horfnir tveimur dögum síðar var Conrad horfinn.

Leitin að Conrad átti eftir að standa yfir í meira en hálfa öld og hefur verið fjallað um leitina í hinum ýmsu sjónvarpsþáttum. Til dæmis í America's Most Wanted og Unsolved Mysteries.

Að sögn rannsakenda málsins hafði Conrad sagt vinum sínum frá áformum sínum um að ræna bankann og stært sig af því hversu auðvelt það væri. Sagt er að hann hafi verið heltekinn af ránsmynd Steve McQueen, The Thomas Crown Affair, og hafi horft á hana svo tugum skipti á meðan hann undirbjó ránið.

Skjöl um gjaldþrot komu upp um ræningjann

Rannsakendur segja að eftir að Conrad lét sig hverfa hafi hann breytt nafni sínu í Thomas Randele og flúið til Washington DC og síðar til Los Angeles, áður en hann settist að í úthverfi í Boston í um þúsund kílómetra fjarlægð frá vettvangi glæpsins.

Talið er að hann hafi síðan lifað rólegu og yfirlætislausu lífi.

Málið var óupplýst í áratugi þangað til rannsakendum var gert viðvart um minningargrein Randele í dagblaði og tókst þá að tengja saman skjöl Conrad frá 1960 við nýleg skjöl hans undir nafninu Randele.

Voru það meðal annars skjöl úr gjaldþrotamáli Randele fyrir dómstóli í Boston árið 2014 sem urðu til þess að upp komst um hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert