Hrósaði leigubílstjóra fyrir hugrekki

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hrósaði leigubílstjóranum sem virðist hafa komið í veg fyrir hryðjuverkaárás í borginni Liverpool í gær.

Fjórir hafa verið handteknir vegna málsins en leigubíll sprakk fyrir utan sjúkrahús í borginni með farþega um borð. Leigubílstjóranum tókst að stíga út úr bílnum skömmu áður. Farþeginn ætlaði sér að fara í dómkirkju þar sem um tvö þúsund manns voru saman komnir til að minnast fallinna hermanna.

Johnson sagði of snemmt að tjá sig um það sem gerðist, enda væri rannsókn enn í gangi.

„En það lítur út fyrir að leigubílstjórinn hafi hegðað sér á ótrúlega yfirvegaðan hátt og verið hugrakkur,“ sagði hann við blaðamenn í London í morgun.

Farþeginn sem sprengdi sjálfan sig og leigubílinn í loft upp …
Farþeginn sem sprengdi sjálfan sig og leigubílinn í loft upp var sóttur að húsi við Rutland Avenue í Liverpool. AFP

„Hetjudáð og hugrekki“

Íhaldsmaðurinn Oliver Dowden sagði að hegðun leigubílstjórans hafi verið þveröfug við „heigulshátt hryðjuverkaárása“.

„Við þurfum að sjá betur hvað gerðist þarna en ef þetta gerðist þá er það enn eitt dæmið um mikla hetjudáð og hugrekki,“ sagði Dowden við Sky News.

Eftir að leigubíllinn sprakk voru þrír menn handteknir, allir á þrítugsaldri, í húsi í Kensington-hverfinu í Liverpool. Fjórði maðurinn, tvítugur að aldri, var einnig handtekinn vegna málsins.

Lögreglan í norðvesturhluta Englands segir málið meðhöndlað sem hryðjuverk þar sem farþeginn notaðist við heimatilbúna sprengju. Að sögn yfirlögregluþjónsins Russ Jackson er óvíst hvað árásarmanninum gekk til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert