Hópur ástralskra kvenna, sem var látinn afklæðast og gangast undir líkamsleit á flugvellinum í Doha í Katar í október á síðasta ári, hefur ákveðið að lögsækja yfirvöld í Katar og krefjast skaðabóta vegna málsins. BBC greinir frá.
Konurnar voru komnar út í flugvél, en þær voru á leið til Sydney í Ástralíu þegar þeim var skipað að fara út úr vélinni í fylgd vopnaðra öryggisvarða og inn í sjúkrabíl þar sem hjúkrunarfræðingar framkvæmdu á þeim líkamsleit. Atvikið átti sér stað eftir að starfsfólk á Hamad-alþjóðaflugvellinum í Doha fann nýfætt barn á salerni í flugstöðvarbyggingunni, en skoðað var hvort konurnar bæru þess merki að hafa nýlega eignast barn.
Málið vakti mikla reiði þegar þær deildu reynslu sinni opinberlega. Í kjölfarið bað forsætisráðherra Katar þær afsökunar á Twitter og einn flugvallarstarfsmaður var látinn taka pokann sinn. Hann fékk jafnframt fangelsisdóm fyrir aðkomu að málinu.
Konurnar, sem eru sjö talsins, segjast hins vegar algjörlega hafa verið virtar að vettugi síðan. Þessi reynsla hafi valdið þeim mikilli niðurlægingu og skaða. Sumar þeirra hafi upplifað ítrekaðar martraðir og vanlíðan. Þær hafi ekki samþykkt líkamsskoðunina og hafi ekki verið gefnar neinar útskýringar á því hvað væri að gerast. Skoðunin stóð í um fimm mínútur, en þeim var svo fylgt aftur út í flugvél.
Ein kvennanna sem vildi ekki koma fram undir nafni, sagði í samtali við BBC að þetta hefði verið það skelfilegasta sem hún hefði upplifað. „Ég var viss um að annaðhvort yrði ég drepin af einhverjum þessara manna með byssurnar eða þá að maðurinn minn, sem var í vélinni, yrði drepinn,“ sagði konan.
Lögfræðingur kvennanna segir þær hafa mætt algjörri þögn yfirvalda í Katar, þrátt fyrir að hafa ítrekað reynt að ná til þeirra. Konurnar vilja fá formlega afsökunarbeiðni frá yfirvöldum í Katar og að verklagsreglum verði breytt á flugvellinum í Doha, svo atvikið endurtaki sig ekki.