Óbólusettir stjórnmálamenn fá ekki laun

Frelsi óbólusettra verður töluvert skert í Lettlandi.
Frelsi óbólusettra verður töluvert skert í Lettlandi. AFP

Ríkisstjórn Lettlands hefur gripið til harðra aðgerða gegn óbólusettum einstaklingum. Er þetta gert til að sporna við frekari útbreiðslu Covid-19.

Nýjustu bólusetningargögn sýna að um 60 prósent fullorðinna í Lettlandi hafa verið fullbólusett gegn Covid-19. Það er með lægstu hlutföllum í Evrópu.

Heimilt að segja óbólusettu fólki upp störfum

Með nýju reglunum er vinnuveitendum í Lettlandi nú heimilt að segja upp starfsmönnum sem neita að láta bólusetja sig gegn Covid-19. Reglurnar virka þannig að vinnuveitandi getur sett óbólusetta starfsmenn í þriggja mánaða ólaunað frí og síðan sagt þeim upp, með eins mánaðar launum í bætur, neiti þeir enn að láta bólusetja sig.

Óbólusettu fólki verður einnig ekki hleypt inn í verslunarmiðstöðvar sem eru stærri en 1.500 fermetrar.

Þá verður kjörnum stjórnmálamönnum, sem geta ekki sýnt fram á bólusetningarvottorð og hafa ekki smitast af veirunni, meinað að gegna skyldum sínum og fá þeir engin laun fyrr en þeir láta bólusetja sig. Bannið gæti náð til tveggja þingmanna.

Útgöngubann heyrir sögunni til

Í staðinn fyrir þessar nýju reglur mun ríkisstjórnin binda enda á útgöngubann sem hefur gilt á milli 20:00 og 06:00 síðustu þrjár vikur.

„Okkur hefur tekist að forðast yfirvofandi hörmungar á sjúkrahúsum. Við höfum náð betri árangri með bólusetningum en baráttunni er hvergi nærri lokið,“ sagði Daniels Pavluts heilbrigðisráðherra Lettlands í skriflegri álitsgerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert