Tveir menn fundust látnir um borð í báti farandfólks undan ströndum eyjarinnar Gran Canaria í dag. Fjórir aðrir voru í alvarlegu ástandi og voru þeir fluttir með þyrlu á sjúkrahús.
Um borð í bátnum voru 42 manns af norður-afrískum uppruna. Báturinn var staðsettur um 180 kílómetra suður af Kanaríeyjum.
Hörmungar sem þessar eru ekki sjaldgæfar þegar fólk leggur leið sína frá Norðvestur-Afríku til spænska eyjaklasans.
Átta manns létust á laugardaginn eftir að bátur þeirra, sem hafði verið á reki í meira en viku með 62 manns innanborðs, sökk við strendur Kanaríeyja.
Að sögn innanríkisráðuneytis Spánar hafa um 16.827 manns komið til Kanaríeyja í ár, á flótta frá Norðvestur-Afríku, og er það 44 prósenta fjölgun frá því í fyrra.