Einstaklingur fannst látinn inni í brennandi húsi í bænum Äppelbo í Svíþjóð í gærkvöldi. Lögreglan rannsakar brunann sem íkveikju.
Tilkynning um brunann barst klukkan 22:35 í gærkvöldi að staðartíma en þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang var húsið þegar orðið alelda, að því er SVT greinir frá.
„Við hófum slökkvistörf strax og búið var að ráða niðurlögum eldsins rétt fyrir miðnætti,“ segir Tony Alan, starfsmaður fyrirtækisins SOS Alarm, sem sér um alla neyðarsímsvörun í Svíþjóð.
Þegar búið var að slökkva eldinn fannst látinn einstaklingur inni í húsinu. Ekki hefur tekist að bera kennsl á hinn látna en ættingjum eiganda hússins sem brann hefur verið gert viðvart um brunann, að sögn lögreglu.
Viðbragðsaðilar voru enn með tvo menn við eftirlit á vettvangi í morgun og munu tæknimenn lögreglunnar líklegast rannsaka vettvanginn síðar í dag, að sögn Magnusar Nordström, vakthafandi lögregluþjóns á svæðinu.
Frumrannsókn á íkveikjunni er hafin en lögreglan vill ekki gefa upp frekari upplýsingar að svo stöddu.