Í gæsluvarðhald grunaður um barnsmorð

Af vettvangi í Hässelby á sunnudagskvöld.
Af vettvangi í Hässelby á sunnudagskvöld. AFP

Yfirvöld í Svíþjóð fara fram á gæsluvarðhald yfir 45 ára föður tveggja barna sem var fleygt út um glugga eftir að hafa verið stungin aðfaranótt mánudags í bænum Hässelby, rétt fyrir utan Stokkhólm. Annað barnanna er látið en hitt liggur alvarlega slasað á sjúkrahúsi.

Móðir barnanna var fyrst handtekinn af lögreglu en henni var sleppt í gær af saksóknara. Hún er þó ennþá með réttarstöðu sakbornings í málinu.

Íbúð foreldranna sem börnunum var fleygt út úr er á fimmtu hæð í fjölbýlishúsi og systkinin tvö voru bæði yngri en tíu ára.

Lögregla hefur verið með mikinn viðbúnað í hverfinu síðan á …
Lögregla hefur verið með mikinn viðbúnað í hverfinu síðan á sunnudagskvöld. AFP

Gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna

„Eftir skýrslutöku hef ég ákveðið að krefjast gæsluvarðhalds yfir manninum svo hann geti ekki afmáð eða spillt sönnunargögnum í málinu,“ hefur dagblaðið Aftonbladet eftir Maria Franzen, sem er saksóknari í málinu. 

Málið hefur vakið mikla skelfingu í Svíþjóð en tvennum sögum fer af hátterni foreldranna. Í miðlinum Expressen er rætt við nokkra nágranna þeirra sem segja parið ýmist hafa verið góðlátlegt fólk en aðrir segja greinilegt að eitthvað hafi verið á seyði hjá þeim. Mikið drasl hafi verið í íbúðinni þeirra og töluverður hávaði borist þaðan. 

Heimildir Aftonbladet herma að maðurinn hafi glímt við andleg veikindi og nýlega misst vinnuna sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert