Streymisþjónustan Netflix á yfir höfði sér meiðyrðamálsókn í Svíþjóð vegna nýrrar þáttaraðar „The Unlikely Murderer“. Þættirnir fjalla um morðið á Olof Palme, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, árið 1986 sem enn þann dag í dag telst óupplýst.
Í kröfugerð sem lögð var fram í dómsmálaráðuneyti Svíþjóðar, sem fréttastofa AFP hefur fengið afrit af, eru rök færð fyrir því að túlkun Netflix á persónu Stig Engstrom, fyrrverandi auglýsingaráðgjafa, sem byssumannsins sé „kristaltært mál í tengslum við ærumeiðingar“.
Niðurstaða áratugalangrar rannsóknar Kristers Peterssonar leiddi í ljós í fyrra að Engström, sem einnig var kallaður Skandia-maðurinn, hafi að öllum líkindum verið morðingi Olofs Palme.
Engström lést árið 2000 og var því aldrei kærður fyrir morðið en lá á sínum tíma undir grun fyrir það og var á meðal fjölmargra sem yfirheyrðir voru á sínum tíma, þegar þessi yfirgripsmesta glæparannsókn í sögu Svíþjóðar hófst.
Netflix-þáttaröðin sem um ræðir er byggð á verðlaunabók rannsóknarblaðamannsins Thomasar Petterssonar. Í henni er Engströn sýndur, þá 52 ára, skjóta Palme og konu hans og snúa síðan á lögregluna, með því að gefa sig fram sem vitni í málinu.
Sýning þáttanna hefur vakið miklar deilur í Svíþjóð.
Netflix hefur varið tilvist og framleiðslu þáttanna og bendir á að texti birtist í lok hvers þáttar þar sem fram kemur að ekki hafi verið sannað að Engström hafi verið morðingi Palme.
Trúnaður ríkir um hver stendur á bak við kæruna á hendur Netflix. Fyrrverandi eiginkona Engströms, Margretha, hefur gagnrýnt framleiðslu þáttanna og túlkun þeirra á persónu manns hennar, en gaf þó í skyn í viðtali að hún hyggist ekki grípa til lagalegra aðgerða gagnvart Netflix.