Segir föður Johnson hafa slegið sig á rassinn

Johnson segist ekki kannast við Caroline Nokes.
Johnson segist ekki kannast við Caroline Nokes. AFP

Tvær konur, önnur þeirra þingkona Íhaldsflokksins, hafa sakað Stanley Johnson, föður Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, um að hafa snert sig á óviðeigandi hátt. Sky News greinir frá.

Caroline Nokes, fyrrverandi ráðherra og núverandi þingkona íhaldsflokksins fyrir Romsey og Southampton, segir að Johnson hafi „slegið hana á rassinn eins fast og hann gat og sagt: ohh Romsey, þú ert með laglegan bakhluta.“ Atvikið á að hafa átt sér stað á ársfundi flokksins í Blackpool árið 2003. Þá hafi hún verið rétt rúmlega þrítug.

Hin konan þingfréttaritari

Þegar Sky News óskaði viðbragða frá Johnson sagðist hann ekki muna eftir neinni Caroline Nokes og þakkaði blaðamanni fyrir.

Nokes greindi frá óviðeigandi hegðun Johnson í umræðuþætti um ofbeldi gegn konum á Sky News.

Hin konan er Ailbhe Rea þingfréttaritari. Hún steig fram í kjölfar umræðuþáttarins og greindi frá því á Twitter á að Johnson hefði þuklað á henni á henni í samkvæmi í tengslum við ársfund flokksins árið 2019. „Ég er þakklát Caroline Nokes fyrir að stíga fram og segja frá því sem engin á að þurfa að þola, að minnsta kosti ekki frá föður forsætisráðherra.“

Johnson hefur aldrei náð kjöri sem þingmaður í Bretlandi en hann er fyrrverandi þingmaður Evrópuþingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert