Vopnahlé við landamæri Armeníu og Aser­baíd­sj­an

Myndin er frá átökum ríkjanna tveggja í fyrra.
Myndin er frá átökum ríkjanna tveggja í fyrra. AFP

Armenía og Aser­baíd­sj­an sömdu í dag um vopnahlé með milligöngu Rússa. Átök brutust út í morgun við landamæri ríkjanna en með tilkomu vopnahlésins er þeim lokið að sögn varnarmálaráðuneytisins í Yerevan.

„Undir handleiðslu Rússlands hafa ríkin komist að samkomulagi við eystri landamæri Armeníu frá því klukkan 18:30. Staðan þar er stöðug eftir atvikum,“ segir í tilkynningu frá varnarmálaráðuneyti Armeníu.

Rífur upp ársgömul sár 

Fyrir ári síðan stóðu ríkin í sex vikna átökum um Nagorno-Karabakh-héraðið en ríkin sömdu um vopnahlé í október 2020. 

Einn lést í átökum dagsins að því er fram kemur í tilkynningu frá varnarmálaráðuneyti Armena en það var armenskur hermaður. Auk þess voru tólf Armenar teknir til fanga. 

Ríkin kenna hvoru öðru um upptök átkanna í morgun og hafa gefið út yfirlýsingar um vafasama háttsemi hermanna hins ríkisins við landmærin. 

Vakti áhyggjur innan álfunnar

Bæði Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið voru búin að biðja leiðtoga ríkjanna um að láta af átökunum í dag. Utanríkisráðherra Frakklands sagðist sömuleiðis hafa miklar áhyggjur af ástandinu og bað ríkin um að halda sig við skilmála vopnahlésins frá því í fyrra.

Armenar biðluðu til Rússlands um milligöngu í viðræðunum en ríkin eru í bandalagi sem skyldar Rússa til þess að grípa inn í ef ógn steðjar að Armenum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka