Smásölurisinn Amazon greindi frá því í dag að fyrirtækið myndi hætta að taka við greiðslum frá Visa-kreditkortum útgefnum í Bretlandi frá og með 19. janúar. Viðskiptavinir munu áfram geta greitt með debetkortum frá Visa.
Amazon segir ákvörðunina tilkomna vegna hækkandi færslugjalda á kreditkortum Visa á sama tíma og tækniframfærir ættu að vera að lækka kostnaðarliði og færslugjöld.
Talsmenn kortafyrirtækisins segja það „mikil vonbrigði að Amazon sé að hóta því að takmarka valfrelsi viðskiptavina í framtíðinni“.
Talsmaður Amazon segir félagið í viðræðum við Visa til þess að leysa deiluna þar sem allir tapi ef valfrelsi viðskiptavinanna sé takmarkað. Fyrirtækin tvö hafi átt í góðu samstarfi um margra ára skeið og binda vonir við að viðskiptavinir geti áfram verslað við Amazon í Bretlandi með Visa-kreditkortum.
Í frétt BBC um málið segir að bæði félögin neiti því að ágreiningurinn hafi nokkuð með Brexit að gera heldur snúist þetta eingöngu um þau færslugjöld sem Visa leggi á greiðslur til Amazon í Bretlandi.