Endurskoða sakfellingu í morðmáli Malcolm X

Malcolm X var skotinn til bana í febrúar árið 1965.
Malcolm X var skotinn til bana í febrúar árið 1965.

Mögulegt er að sakfelling á tveimur mönnum, sem fundnir voru sekir um að hafa orðið Malcolm X að bana, verði snúið við á morgun, fimmtudag, rúmlega hálfri öld frá því að dómurinn var kveðinn upp þann 11. mars árið 1966.

Frá þessu er greinir dagblaðið New York Times.

Málið sem höfðað var gegn mönnunum, Muhammad A. Aziz og Khalil Islam, á sínum tíma var talið vafasamt og hafa sagnfræðingar og aðrir áhugamenn vakið upp efasemdir um dóminn í gegnum tíðina. Eftir tæplega tveggja ára rannsókn hefur komið í ljós að mikilvægum sönnunargögnum var haldið til hliðar sem hefðu mögulega leitt til sýknudóms.

Mennirnir tveir losnuðu úr fangelsi á níunda áratugnum og er aðeins annar þeirra á lífi í dag, Muhammad A. Aziz, og er hann 83 ára gamall.

Engin haldbær sönnunargögn

Malcolm X var skotinn til bana þann 21. febrúar árið 1965 rétt áður en hann átti að taka til máls á viðburði í Audubon salnum í Manhattan. Þrír menn skutu að honum í salnum, og var einn handtekinn á vettvangi, eða Mujahid Abdul Halim.

Aziz var þó ekki handtekinn fyrr en að fimm dögum liðnum frá atburðinum og Islam ekki fyrr en 10 dögum liðnum. Innan við viku síðar var búið að ákæra alla mennina fyrir morðið.

Í réttarhöldunum var því haldið fram að Islam hefði verið sá sem ætti banaskotið en hinir tveir hefðu þó einnig skotið úr byssum sínum í átt að Malcolm X. 10 sjónarvottar staðfestu að Islam og Aziz hefðu verið á staðnum.

Lýsingum vitna bar þó oft ekki saman og engin haldbær sönnunargögn bendluðu mennina tvo við morðið eða vettvanginn. Þá voru báðir mennirnir með trúverðugar fjarvistarsannanir sem makar þeirra og vinir gátu staðfest. Þegar Halim játaði svo morðið hélt hann því fastlega fram að hinir tveir sakborningarnir væru saklausir.

Mánuði eftir að réttarhöldin hófust voru þeir þó allir sakfelldir og dæmdir í lífstíðarfangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert