Faðir tveggja barna sem fundust alvarlega særð eftir að hafa verið stungin og fleygt út um glugga á fjölbýlishúsi í bænum Hässelby, rétt fyrir utan Stokkhólm, aðfaranótt mánudags, hefur játað á sig verknaðinn. Annað barnanna er látið en hitt liggur alvarlega slasað á sjúkrahúsi.
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald á mánudaginn síðastliðinn vegna gruns um manndráp og tilraun til manndráps. Hann játaði svo verknaðinn á sig í skýrslutöku í dag, að sögn Malin Rådström, lögmanns hans.
„Það er alveg ljóst að þetta mun skipta máli fyrir rannsóknina en það er samt mikilvægt að við höldum áfram að skoða allar hliðar á málinu,“ segir Maria Franzén, deildarsaksóknari.
Vegna játningar mannsins ákvað héraðsdómurinn í Solna að framlengja gæsluvarðhaldi yfir manninum í dag, að því er SVT greinir frá. Hann sætir gæsluvarðhaldi á Karólínska sjúkrahúsinu en heimildir Aftonbladet herma að maðurinn hafi glímt við andleg veikindi.
„Maðurinn var klæddur fangafötum og var með hvítt handklæði á höfðinu svo það sæist ekki framan í hann,“ segir fréttaritari SVT sem var á staðnum.
Móðir barnanna tveggja var einnig handtekinn en henni var svo sleppt á mánudagskvöldið síðastliðið. Hún er þó ennþá með réttarstöðu sakbornings í málinu.