Lést þegar aurskriða féll á þjóðveg

Gríðarlegir vatnavextir í Kanada hafa orðið síðustu daga.
Gríðarlegir vatnavextir í Kanada hafa orðið síðustu daga. AFP

Aurskriða sem féll í Bresku-Kólumbíu í Kanada á þriðjudag urðu konu að bana. Miklir vatnavextir hafa verið á svæðinu undanfarna daga og segja yfirvöld í landinu að um fyrsta staðfesta andlátið af völdum hamfaranna sé að ræða.

Í frétt BBC er sagt frá því að óveðrið sem gekk yfir Bresku-Kólumbíu sé það versta í ein 100 ár og að þúsundir hafi þurft að flýja heimili sín vegna þess.

„Algjör glundroði“

Í frétt CBC-fréttastöðvarinnar er haft eftir fógeta í suðurhluta Bresku-Kólumbíu að ekki sé vitað hversu margra einstaklinga sé saknað en yfirvöld vita af a.m.k. tveimur einstaklingum hvers afdrif er ekki vitað um.

Kathie Rennie, vegfarandi um þjóðveg sem aurskriðan féll yfir, lýsti atburðum þriðjudagsins fyrir CBC. Hún segir að aurskriðan hafi fallið á bíla sem þá þegar stóðu hreyfingarlausir á veginum.

„Í sömu svipan förum við aftur í bílana okkar, fólkið fyrir framan okkur hleypur bara og öskrar upp yfir sig. Af svip þeirra að dæma var bara eins og flóðbylgja væri yfirvofandi. Þetta var það óhugnalegasta sem ég hef nokkurn tímann séð,“ sagði Rennie.

„Ég sný við og ég horfi bara á hlíðar fjallsins hrynja niður og hrifsa með sér bílana. Það fór allt með skriðunni. Bara algjör glundroði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert