Loka öllum skólum vegna loftmengunar

Delí er ein mest mengaða borg í heiminum.
Delí er ein mest mengaða borg í heiminum. AFP

Indversk stjórnvöld hafa lokað öllum skólum í stórborginni Delí um óákveðinn tíma vegna versnandi loftmengunar í borginni.

Loftgæðin í borginni talin mjög heilsuskaðleg

Þá hafa allar framkvæmdir í borginni einnig verið bannaðar til 21. nóvember næstkomandi en undantekning hefur verið gerð á framkvæmdum tengdum samgöngum og vörnum.

Aðeins fimm af 11 kolavirkjunum í borginni hafa fengið leyfi til að starfa á meðan.

Þrúgandi eitruð þoka hefur gnæft yfir borginni síðan Dívalí hátíðin var haldin 4. nóvember síðastliðinn.

Magn PM2.5, örmárra agna sem geta stíflað lungu fólks, mælist mun hærra í Delí en það sem telst skaðlegt fyrir heilsu sakvæmt Alþjóð­heil­brigð­is­mála­stofn­un­inni (WHO). Í nokkrum hlutum borgarinnar mældist mengunin um og yfir 400 sem þykir mjög alvarlegt, samkvæmt loftgæðavísitölunni (AQI). Talið er „gott“ ef mengunin mælist á milli 0 og 50 og „fullnægjandi“ ef hún er á milli 51 og 100, að því er greint frá í frétt BBC.

Stjórnvöld í Delí segjast hafa ákveðið að loka skólunum í von um að bæta loftgæði í borginni. Nokkrum skólum hafði þegar verið lokað í síðustu viku.

Nemendur yfirgefa skóla sinn í Nýju Delí. Ekki er víst …
Nemendur yfirgefa skóla sinn í Nýju Delí. Ekki er víst hvenær þeir fá að fara aftur í skólann. AFP

Hvetja til þess að fólk vinni heiman frá sér

Blanda mismunandi þátta eins og útblástur frá bílum og iðnaði, ryk og veðurfar gerir Delí að menguðustu borg í heimi. Loftið þar verður sérstaklega eitrað yfir vetrarmánuðina þegar bændur í nágrannaríkjunum brenna og losa sig við sinu til að bæta nýtingu lands til landbúnaðarnota. Þá versna loftgæði í borginni einnig verulega á meðan Dívalí hátíðin stendur yfir. Lítill vindhraði á líka sinn þátt þar sem mengun safnast saman í neðri lofthjúpi jarðar.

Aðrar ráðstafanir sem stjórnvöld hafa tilkynnt fela í sér tímabundið bann við umferð vörubíla inn í Delí og nágrannaríkjunum Uttar Pradesh, Punjab, Haryana og Rajasthan, nema þegar flytja þarf nauðsynjavörur.

Þá hafa atvinnurekendur einnig verið hvattir til þess að leyfa 50% starfsmanna sinna að vinna heiman frá sér á tímabilinu til þess að draga úr útblæstri ökutækja og svifryksmengunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert