Heimsfaraldurinn mun ekki koma í veg fyrir mannsöfnuð á hinu víðfræga Times Square í New York um áramótin. Bill de Blasio, borgarstjóri New York, kynnti í gær ákvörðun sem mun heimila þúsundum gesta að koma saman á torginu til að fylgjast með nýársboltanum detta niður.
„Við viljum að atburðurinn verði stór, við viljum að hann verði fullur af lífi, við viljum að þetta verði frábær fögnuður í New York,“ sagði de Blasio við blaðamenn.
Gestir verða þó að uppfylla viss skilyrði til að mega mæta en farið verður fram á vottorð sem sýnir fram á fulla bólusetningu. Þeir sem ekki geta farið í bólusetningu vegna læknisfræðilegra ástæðna verða krafnir um niðurstöður úr neikvæðu Covid-prófi, sem verður að vera innan við 72 klukkustunda gamalt.
Á síðasta ári var fögnuðurinn á Times Square ekki með venjulegu móti en einungis framlínustarfsfólki og gestum þeirra var boðið á torgið til að fagna nýju ári. Var þá svæðinu skipt upp í sóttvarnarhólf og því ekki um mikla mannmergð að ræða líkt og þekkist.