Hópur fornleifafræðinga í Marokkó sýndu í dag skartgripi sem eru taldir þeir elstu í mannkynssögunni. Um er að ræða skeljar sem búið var að gata og ætla má að hafi verið notaðar í einskonar hálsmen eða armband.
Skeljarnar fundust í Bizmoune-hellinum nærri strandborginni Essaouira sem liggur við Atlantshaf. Talið er að skeljarnar séu á bilinu 142-150 þúsund ára gamlar, en það hefur AFP eftir einum fornleifafræðinganna, Abdeljalil Bouzouggar.
„Þessi fundur hefur gríðarlega þýðingu fyrir mannskynssöguna. Skeljarnar eru táknrænir hlutir og táknrænum hlutum, ólíkt verkfærum til að mynda, getur einungis verið miðlað með tungumáli. Þetta vekur upp spurninguna hvort tungumál hafi verið til staðar á þessum tíma,“ sagði Bouzouggar enn fremur.
Á blaðamannafundi sem haldinn var af menningarmálaráðuneyti Marokkó í dag benti hann einnig á að sambærilegir munir hefðu fundist víða um Mið-Austurlönd sem og í Afríku. Þær skeljar hafi verið á bilinu 35-135 þúsund ára gamlar.
Þá benti hann einnig á að í Marokkó hafi fundist nokkrar af elstu mannsleifum sem fundist hafa. Árið 2017 fundust til að mynda leifar fimm einstaklinga sem taldir eru hafa látist fyrir um 315 þúsund árum.