Neyðarástandi lýst yfir í hluta Kanada

Þúsundir eru strand vegna flóða og geta ekki flúið heimili …
Þúsundir eru strand vegna flóða og geta ekki flúið heimili sín. Kanadíski herinn aðstoðar nú fólk við að komast leiða sinna. AFP

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Bresku-Kólumbíu, í vestanverðu Kanada, eftir að óveður og vatnavextir urðu til þess að samgönguinnviðir urðu óvirkir á svæðinu.

Kanadíski herinn hefur verið sendur til Bresku-Kólumbíu til þess að aðstoða fólk við að flýja heimili sín og komast leiðar sinnar. Þúsundir hafa verið strand á heimilum sínum frá því á sunnudag síðastliðinn þegar óveðrið skall á, eins og segir í frétt BBC.

Eins og sjá má á myndum frá Kanada eru vatnavextir gríðarmiklir, ár og vötn hafa flætt yfir vegi og lestarteina og talað er um mestu veðurhamfarir á svæðinu í ein hundrað ár.

Ein kona lést fyrr í vikunni þegar aurskriða féll á þjóðveg á svæðinu og þriggja er saknað.

Heilu húsin hafa horfið.
Heilu húsin hafa horfið. AFP

Yfirvöld kenna loftslagsbreytingum um

Yfirvöld í Kanada segja að vatnavextina megi rekja til loftslagsbreytinga. Straumur uppgufaðs vatns, sem alla jafna flytur hitabeltisregn til norðurskautsins, varð að rigningu yfir Bresku-Kólumbíu og rigndi niður því sem nemur mánaðarmeðaltali á einum sólarhring.

John Horgan, æðsti ráðherra Bresku-Kólumbíu, var ómyrkur í máli sínu þegar hann tilkynnti í gær að lýsa skyldi yfir neyðarástandi.

„Það er ekki ein manneskja sem hefur ekki fundið fyrir áhrifum eða mun síðar finna fyrir áhrifum þess sem gerst hefur í vikunni. Fjöldi atburða eins og við sjáum nú hefur færst í aukana vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum,“ sagði Horgan á blaðamannafundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert