Íhaldsflokkurinn (K) er ótvíræður sigurvegari á landsvísu í sveitarstjórnarkosningunum í Danmörku, sem fram fóru á sunnudag. Hann jók fylgi sitt í 92 sveitarfélögum af 98 samanborið við úrslit í kosningunum 2017 og tvöfaldaði nánast fylgið. Danski þjóðarflokkurinn fékk hins vegar útreið og sagði formaður flokksins af sér í gær. Jafnaðarmannaflokkur Mette Fredriksen forsætisráðherra varð fyrir áfalli, einkum í Kaupmannahöfn, en hélt þó víða áhrifum sínum.
Þetta eru bestu úrslit Íhaldsflokksins um 36 ára skeið. Flokkurinn jók fylgi sitt um meira en 10 prósentustig í 15 af sveitarfélögum landsins, en á landsvísu jókst fylgið um 6,4 prósentustig í 15,2%. Eftir kosningarnar 2017 átti flokkurinn átta borgarstjóra, en þeir eru 12 talsins eftir úrslit helgarinnar og kann að fjölga enn. Enn er óvíst um níu borgarstjórastóla, en þeir velta á því hvernig um semst við smærri flokka.
Hins vegar hallaði mjög undan fæti hjá Jafnaðarmannaflokknum (A), sem fékk verstu úrslit í sveitarstjórnarkosningum síðan 1970 og hlaut skell í höfuðvíginu Kaupmannahöfn. Jafnaðarmenn eru sem fyrr stærsti flokkurinn (28,5%), en það er 3,9 prósentustigum lægra en í kosningunum 2017 og flokkurinn missti fylgi í 70 sveitarfélögum. Sérstaklega í borgunum, þar sem hann hefur átt mestu fylgi að fagna.
Ástæður hrakfaranna eru vafalaust margar, en margir kenna Mette Fredriksen forsætisráðherra um, ekki síst vegna minkahneykslisins svonefnda. Það snýr að ólöglegri ákvörðun um að láta lóga öllum minkum í landinu í upphafi kórónuveirufaraldursins og hreinskilni um þátt hennar.
Aðrir segja tapið meira en svo, flokkurinn þurfi að leggjast í naflaskoðun á meginstefnu sinni og skírskotun. Hitt blasir við að staða Mette Fredriksen er veikari en nokkru sinni og margir hafa gagnrýnt stjórnunarstíl hennar.
Verr hefði þó getað farið, en jafnaðarmenn þóttu fikra sig talsvert til hægri í kosningabaráttunni, ekki síst með því að ítreka stefnu sína í innflytjendamálum, sem þeir tóku að miklu leyti upp frá Danska þjóðarflokknum (DF), sem margir gagnrýna fyrir að ala á fordómum.
Það kann að hafa haft áhrif á gengi Danska þjóðarflokksins (DF), sem galt afhroð í kosningunum. Hann tapaði fylgi í hverju einasta sveitarfélagi landsins og engu smáræði, fór úr 8,8% fylgi á landsvísu árið 2017 í aðeins 4,1% nú. Af því tilefni sagði Kristian Thulesen Dahl af sér sem formaður flokksins í gær.
Á ýmsu hefur gengið í ráðhúsi Kaupmannahafnar á kjörtímabilinu, en í fyrra sagði Frank Jensen, aðalborgarstjóri jafnaðarmanna, af sér eftir að hafa verið sakaður um kynferðislega áreitni.
Um helgina tapaði Jafnaðarmannaflokkurinn um þriðjungi fylgis síns í borginni frá fyrri kosningum, en í fyrsta skipti í meira en öld er hann ekki stærsti flokkur höfuðborgarinnar. Hann fékk aðeins 17,3% atkvæða en hinn vinstri græni Einingarlisti (EL) sópaði til sín fylgi og fékk hartnær fjórðung atkvæða í höfuðborginni.
Þrátt fyrir það náðu jafnaðarmenn að halda aðalborgarstjórastólnum en Sophie Hæstorp Andersen verður nýr borgarstjóri Kaupmannahafnar. Svipað var upp á teningnum í Árósum, Óðinsvéum og Álaborg; jafnaðarmenn töpuðu verulegu fylgi en hélst á borgarstjórum.
Hins vegar urðu þau sögulegu tíðindi að þrátt fyrir að Íhaldsflokknum gengi vel í hinu borgaralega vígi Fredriksberg í Kaupmannahöfn, þá náðu borgaraflokkarnir ekki saman um borgarstjóra þar. Það tókst vinstrimönnum hins vegar.
Kjörsókn í sveitarstjórnakosningunum var óvenjulítil, aðeins 67,2%, sem margir vilja rekja til heimsfaraldursins. Kjörsóknin var áberandi minnst í sveitarfélögum Kaupmannahafnar.