Aðeins örfáum dögum eftir að hertar sóttvarnaaðgerðir voru tilkynntar einungis fyrir óbólusetta í Austurríki, hafa almennar sóttvarnaraðgerðir verið hertar til muna og tilkynnt hefur verið um útgöngubann þar í landi frá og með mánudegi.
BBC greinir frá.
Alexander Schallenberg, kanslari Austurríkis, sagði í yfirlýsingu að aðgerðirnar yrðu látnar gilda í tuttugu daga að hámarki og að bólusetning við Covid-19 verði lögformleg skylda frá 1. febrúar á næsta ári.
Aðgerðirnar eru viðbrögð við metfjölda smita í Austurríki, þar sem bólusetningahlutfall er hvað lægst á meðal Vestur-Evrópubúa. Sóttvarnaraðgerðir og takmarkanir vegna þess eru nú hertar víða um Evrópu vegna aukins fjölda smita.
„Við viljum ekki fimmtu bylgjuna,“ sagði Schallenberg við fjölmiðla eftir fund með ríkisstjórum allra níu ríkja landsins.
Nýjustu tölur í Austurríki sýna fjórtán daga nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa vera 990,7, sem er um helmingi hærra en hér á landi.