Biden reiður yfir sýknu byssumannsins

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti segist vera reiður eftir að unglingur sem skaut tvo til bana í mótmælum gegn lögreglu í Kenosha-borg í Wisconsin-ríki var sýknaður í gær. Forsetinn lýsti vonbrigðum sínum í skriflegri yfirlýsingu.

Kylie Rittenhouse játaði að hafa orðið tveimur að bana.
Kylie Rittenhouse játaði að hafa orðið tveimur að bana. AFP

Byssumaðurinn heitir Kylie Rittenhouse og er 18 ára gamall. Hann var 17 ára þegar hann hleypti af byssunni þann 25. ágúst í fyrra. Rittenhouse grét þegar hann var sýknaður í gær og hné nánast niður af létti. Wendy, móðir Rittenhouse, grét einnig. 

Eftir að dómur var kveðinn upp brutust út lágstemmd mótmæli.
Eftir að dómur var kveðinn upp brutust út lágstemmd mótmæli. AFP

Kviðdómurinn var skipaður sjö konum og fimm karlmönnum. Kviðdómurinn tók sér þrjá og hálfan dag í umræður um það hvort dæma ætti Rittenhouse. Ákvað kviðdómurinn að lokum að sýkna Rittenhouse af ákærum um tvö manndráp af ásetningi, eina tilraun til manndráps og að hafa stefnt öryggi fólks í hættu. 

Biden viðurkennir dóminn

Rittenhouse hefur áður játað að hafa skotið Joseph Rosenbaum og Anthony Huber, auk þess að hafa sært Gaige Grosskreutz en hefur alltaf haldið því fram að um sjálfsvörn hafi verið að ræða. 

Skilti í Kenosha sem hvetur til friðar eftir dóminn.
Skilti í Kenosha sem hvetur til friðar eftir dóminn. AFP

Rittenhouse og mennirnir sem hann skaut til bana eru allir hvítir, sem og sá sem Rittenhouse særði. Kynþáttamisrétti var þó gjarnan rætt við réttarhöldin þar sem Rittenhouse hleypti af byssunni á mótmælum gegn ofbeldi lögreglu gegn fólki með dökkan hörundslit. 

Í yfirlýsingu sinni um útkomu réttarhaldanna sagði Biden: „Þrátt fyrir að dómurinn í Kenosha muni reita marga Bandaríkjamenn, þeirra á meðal mig sjálfan, til reiði og gera þá áhyggjufulla, verðum við að viðurkenna að kviðdómurinn hefur talað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert