Flugeldar og táragas í mótmælum Belga

Belgar mótmæla hertum sóttvarnaaðgerðum og tilkomu Covid-passans.
Belgar mótmæla hertum sóttvarnaaðgerðum og tilkomu Covid-passans. AFP

Átök brutust út milli mótmælenda og lögreglumanna í Brussel í dag þar sem tugir þúsunda Belga söfnuðust saman til að mótmæla hertum sóttvarnaaðgerðum.

BBC greinir frá.

Reiðir mótmælendur kveiktu elda og köstuðu flugeldum í lögreglu sem á móti sprautuðu vatni og beittu táragasi. Þá kom einnig til þess að lögregla skaut úr byssum.

Ástæðu mótmælanna má fyrst og fremst rekja til harðra viðbragða Belga við upptöku Covid-passans í Belgíu. Þessi nýja aðgerð mun setja takmörk á frelsi óbólusettra einstaklinga þar sem þeir munu ekki fá aðgang að svæðum á borð við veitingastaði og bari.

Ákvæði um grímunotkun hafa einnig verið hert og munu margir Belgar þurfa að vinna að heiman fjóra daga vikunnar þangað til um miðjan desember. Þá eru skyldubólusetningar fyrir heilbrigðisstarfsmenn á teikniborðinu.

Búast megi við 500 þúsund dauðsföllum

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur mikla áhyggjur af útbreiðslu smita í Evrópu en talið er líklegt að búast megi við hálfri milljón dauðsfalla til viðbótar fyrir næsta vor ef ekki verður gripið til hertari aðgerða í heimsálfunni.

„Covid-19 hefur enn og aftur orðið helsta orsök dauðsfalla á svæðinu. [...] Við vitum hvað þarf að gera til að berjast við veiruna,“ segir Hans Kluge, framkvæmdastjóri Evrópudeildar WHO.

Mótmæli hafa verið víða í Evrópu síðustu daga vegna sóttvarnaaðgerða. Meðal annars á Ítalíu og í Króatíu, Austurríki og Hollandi, þar sem ríkisstjórnir hafa verið að herða aðgerðir til að bregðast við fjölgun smita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert