Styrmir Svavarsson, efnaverkfræðingur sem búsettur er í borginni Rotterdam í Hollandi, segir Hollendinga almennt ekki ánægða með harðar takmarkanir þó flestir sýni þeim skilning. Helst séu þeir nú óánægðir sem eru á móti bólusetningum. Hundruð mótmælenda söfnuðust saman í Rotterdam á föstudagskvöldið til að mótmæla sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda þar í landi en aðgerðir voru hertar fyrir rúmri viku.
Lögreglan skaut á og særði að minnsta kosti tvo einstaklinga en mótmælendur köstuðu steinum í átt að lögreglu. Mótmælin héldu áfram víðsvegar um Holland í nótt þar sem mótmælendur kveiktu meðal annars í hjólum.
„Fólk er auðvitað aðeins meira pirrað núna, bólusetningarnar áttu auðvitað að koma fólki úr þessum takmörkunum,“ segir Styrmir en bætir þó við að langflestir þeirra sem hann hefur talið við skilji að takmarkanirnar séu settar á af nauðsyn.
„Síðan er þessi hópur af fólki sem er á móti þessu. Hann hefur kannski aðeins stækkað en það er voðalega erfitt að segja til um það,“ segir Styrmir en sjálfur var hann að búast við að slíkar aðgerðir yrðu teknar upp enda löndin í kring að setja á svipaðar takmarkanir.
Styrmir segist ekki hafa orðið var við mótmælin í Rotterdam á föstudagskvöldið fyrr en hann frétti af þeim á laugardagsmorgun frá vinnufélögum og vinum.
„Þetta leit frekar illa út en þetta er mjög svipað og þegar þau settu útgöngubannið á.“ Þá segir Styrmir að margir mómælendurnir hafa verið ungir. „Ég held að helmingur þeirra sem voru handteknir núna hafi verið undir lögaldri.“
Styrmirbendir á að bólusetningarpassar muni hafa lítil áhrif á þá sem séu bólusettir en stjórnvöld í Hollandi hafa tekið ákvörðun um að taka upp slíka passa. Umræðan sé hins vegar frekar farin að snúast um það hvort það sé í lagi að hafa slíka passa og að neita fólki um þjónustu á grundvelli hans. „Þá eru auðvitað PCR prófin farin út um gluggann,“ segir Styrmir.
Stjórnvöld hafa einnig tekið ákvörðun um að flugeldar skuli bannaðir á gamlárskvöld. Mótmælin á föstudag beindust einnig að því banni og köstuðu því mótmælendur flugeldum í átt að lögreglu og kviknaði í lögreglubílum. Að sögn Styrmis er markmiðið með flugeldabanninu að koma í veg fyrir aukið álag á bráðamóttökunni á gamlárskvöld.
Þegar blaðamaður heyrði í Styrmi í gær sagðist hann heyra í flugeldum út um gluggann. Hann kvaðst þó ekki viss um að það hefði verið kveikt í þeim í mótmælaskyni.
„Ég var nú bara að labba niður götuna um daginn og sá einhverja krakka með flugelda. Í hverfinu mínu er þetta bara svolítið algengt. Ég er ekkert mikið að kippa mér upp við þetta en það er kannski aðeins meira núna,“ segir Styrmir.