Ástralir hefja tilslakanir á landamærum

Landamæri Ástralíu hafa nánast verið alveg lokuð frá því í …
Landamæri Ástralíu hafa nánast verið alveg lokuð frá því í mars á síðasta ári. AFP

Um næstu mánaðamót munu Ástralir hefja tilslakanir á landamærum fyrir ákveðinn hóp fólks og fólk af ákveðnu þjóðerni, en landamærin hafa nánast verið alveg lokuð frá því í mars á síðasta ári. BBC greinir frá.

Landamæralokanir hafa líka náð til Ástrala sjálfra, sem máttu hvorki yfirgefa landið né koma heim aftur fyrr en í nóvember síðastliðnum þegar bólusettir Ástralir fengu leyfi til að ferðast út fyrir landsteinana og snúa aftur heim.

Yfirvöld í Ástralíu hafa tilkynnt að frá og með 1. desember næstkomandi verði erlendum fræðimönnum, starfsfólki með sérþekkingu, erlendum nemum, Japönum og Suður-Kóreubúum heimilt að að ferðast til landsins eða dvelja þar í ákveðinn tíma hafi fólk vegabréfsáritun og sé bólusett. Þá verða allir að skila inn neikvæðu covid prófi þremur dögum áður en þeir koma til landsins.

Scott Morrison, forsætisráðherra landsins, segir tilslakanirnar mikilvægt skref fram á við, en yfir 85 prósent Ástrala yfir 16 ára eru nú bólusettir og hefur bólsetningarmarkmið því náðst.

Yfirvöld gera ráð fyrir að um 200 þúsund ferðamenn muni heimsækja landið í desember og janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert