Kyle Rittenhouse, bandaríski táningurinn sem var sýknaður eftir að hafa skotið tvo menn til bana á meðan á mótmælum stóð og uppþotum gegn lögreglunni, segir að sjálfsvörn sé „ekki ólögleg“. Mótmæli brutust út víða í Bandaríkjunum eftir að hann var sýknaður.
Rittenhouse, sem er 18 ára, var á föstudaginn sýknaður af öllum ákæruliðum. Verið var að mótmæla kynþáttafordómum í borginni Kenosha í ríkinu Wisconsin í fyrra þegar hann lét skotin ríða af.
Í sjónvarpsviðtali við Fox News sagðist Rittenhouse finna fyrir miklum létti eftir sýknudóminn og að „erfitt ferðalag“ sé á enda runnið.
„Kviðdómurinn komst að réttri niðurstöðu. Sjálfsvörn er ekki ólögleg,“ sagði Rittenhouse en viðtalið verður sýnt í heild sinni í kvöld. Heimildarmynd um málið fer síðan í loftið í desember.
„Ég er ánægður með að allt fór vel...Við komumst í gegnum erfiðasta hjallann,“ bætti hann við.
Kyle Rittenhouse: "This case has nothing to do with race."
— Tucker Carlson (@TuckerCarlson) November 22, 2021
Watch our exclusive interview, tomorrow at 8pm ET on @FoxNews pic.twitter.com/vXLEVtfycc
Joe Biden Bandaríkjaforseti hafði áður lýst yfir vonbrigðum sínum með niðurstöðu kviðdómsins og hvatti fólk til að sýna stillingu.