Flestir Þjóðverjar verða „bólusettir, læknaðir eða látnir“ í tengslum við kórónuveiruna á komandi mánuðum segir heilbrigðisráðherra landsins, Jens Spahn.
Hann hvatti landa sína í dag til þess að þiggja bólusetningu. Þrátt fyrir greiðan aðgang að bóluefnum hafa aðeins um 68% Þjóðverja látið bólusetja sig gegn veirunni. Sérfræðingar segja að það hlutfall sé of lágt til þess að hægt sé að ná utan um stærri smitbylgjur.
„Líklega verður það við lok þessa vetrar, eins og stundum er sagt í kaldhæðni, sem allir Þjóðverjar verða annað hvort bólusettir, læknaðir eða látnir,“ sagði Spahn og vísaði til Delta-afbrigðis veirunnar.
„Þess vegna mælum við eindregið með því að fólk þiggi bólusetningu,“ bætti hann við.
Ráðherrann lætur hafa þetta eftir sér á sama tíma og Þjóðverjar keppast við að stemma stigu við metfjölgun smita síðustu vikna. Viðvörunarbjöllur hringja nú á sjúkrahúsum landsins vegna yfirfullra bráðdeilda.
Á þeim svæðum þar sem spítalainnlagnir eru margar verður óbólusettum meinaður aðgangur að almenningsstöðum eins og líkamsræktarstöðvum, kvikmyndahúsum og veitingastöðum.
Um 30 þúsund tilfelli greindust í gær í þessu fjölmennasta ríki Evrópusambandsins og hafa því um 5,3 milljónir manna smitast í Þýskalandi síðan faraldurinn hófst fyrir tæpum tveimur árum. Um 100 þúsund manns hafa látist vegna veirunnar, þar af 62 síðastliðinn sólarhring.