Ísraelar hófu í gær bólusetningu barna á aldrinum 5 til 11 ára við Covid-19. Örfá ríki heims bólusetja það ung börn en Ísraelsmenn vilja koma í veg fyrir nýja bylgju faraldursins.
Í frétt AFP kemur fram að smitum hafi fjölgað í landinu í sumar og hafi þá verið gripið til þess ráðs að gefa fólki örvunarskammta af bóluefni Pfizer.
Smitum hefur aftur farið fjölgandi í landinu undanfarnar vikur og skrifaði Naftali Bennett forsætisráðherra á Facebook að núverandi bylgja væri „barnabylgja“ en flest hinna smituðu eru undir 12 ára aldri.
„Þetta var ekki auðveld ákvörðun,“ sagði Heli Nave, sem sér um bólusetningar barna í Tel Aviv í samtali við AFP. Hún sagði enn fremur að bólusetning barna væri besta leiðin til að vernda börn gegn veirunni.
Yngsti sonur forsætisráðherrans verður bólusettur á eftir, að því er fram kemur í tilkynningu.