Fjórir hafa verið handteknir eftir að 27 drukknuðu þegar gúmmíbát með flóttafólk á leið yfir Ermarsundið hvolfdi í gær. Fólkið var á leið frá Frakklandi til Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Emmanuel Macron Frakklandsforseti sögðu að löndin þyrftu að vinna saman, ásamt Belgum og Hollendingum, til að koma í veg fyrir slíkar hörmungar.
„Ég mun ekki láta það viðgangast að Ermarsundið verði að kirkjugarði,“ sagði Macron.
Johnson sagði eftir neyðarfund í gærkvöldi að það væri gríðarlega mikilvægt að stöðva starfsemi glæpahópa sem sendi fólk á haf út.
Hann sagði ekki nóg hafa verið gert í þeim málum hingað til og að bresk stjórnvöld myndu styðja betur við bakið á Frökkum í þeim efnum.