Fleiri leggja sig í hættu á Ermarsundi

Starfsmaður bresku strandgæslunnar um borð í gúmmíbáti með hóp af …
Starfsmaður bresku strandgæslunnar um borð í gúmmíbáti með hóp af flóttafólki við komuna til hafnarborgarinnar Dover. AFP

Hópur fólks í björgunarvestum sást sitja saman í hnipri um borð í björgunarbáti skammt frá bresku borginni Dover í morgun, degi eftir að 27 drukknuðu á Ermarsundi er þeir reyndu að komast til Bretlands. Það er eitt mannskæðasta sjóslys sem þar hefur orðið.

Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, greindi frá því að 17 karlmenn, sjö konur og þrjú börn hafi drukknað í gær. Ein kvennanna var ólétt. Alls hafa fimm verið handteknir í tengslum við málið. 

AFP

Tveir einstaklingar komust lífs af og voru þeir fluttir á sjúkrahús í Frakklandi. Þeir eru í lífshættu að sögn yfirvalda vegna alvarlegrar ofkælingar. Annar þeirra er frá Írak en hinn frá Sómalíu, að því er segir í frétta á vef breska útvarpsins

Upphaflega var talið að 31 hefði beðið bana en talan var endurskoðuð í nótt þegar betri upplýsingar lágu fyrir. Mikill viðbúnaður fór í gang í gær eftir að sjómenn um borð í fiskibát sáu nokkra einstaklinga í hafinu skammt frá Frakklandsströnd.

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, hefur óskað eftir fundi með Darmanin til að ræða hvernig eigi að bregðast við þessum harmleik. 

AFP

Talsmaður forsætisráðherra Bretlands segir að yfirvöld verði að taka höndum saman og beita sér gegn glæpahópum sem stunda mansal og níðist á viðkvæmum hópum með þessum hætti. 

Kevin Foster, ráðherra innflytjendamála í Bretlandi, segir að bresk stjórnvöld séu staðráðin í að brjóta þessa „illu“ viðskiptahætti glæpahópanna. Þeir væru vísvitndi að senda fólk inn á hættulegt hafsvæði á illa búnum bátum. „Þeir sem skipulögðu þessa bátssiglingu í gær hafa bara litið á þetta fólk, sem lét lífið, sem tækifæri til að græða peninga,“ sagði hann í samtali við BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert