Yfir 100.000 látist af völdum veirunnar

AFP

Fleiri en 100.000 hafa látist úr Covid-19 í Þýskalandi en farsóttar- og smitsjúkdómastofnun þarlendra yfirvalda greindi frá því í gær. Alls lést 351 af völdum veirunnar síðasta sólarhring og eru dauðsföllin frá upphafi heimsfaraldursins því 100.119.

Smitum hefur fjölgað hratt í Þýskalandi undanfarna daga og vikur og nú er svo komið að gjörgæsludeildir eru víðast hvar að fyllast af Covid-sjúklingum.

Álagið er sums staðar það mikið að flytja hefur þurft sjúklinga til annarra landa.

Fylgjandi skyldubólusetningum

Tilkynnt var um hertar sóttvarnaaðgerðir í Þýskalandi í síðustu viku, þar sem fólk þarf meðal annars víða að nota bólusetningarvottorð. Sum svæði hafa hert aðgerðir enn frekar og mannmörgum stöðum, eins og börum og kaffihúsum, lokað.

Olaf Scholz, verðandi kanslari, hefur lýst yfir stuðningi við skyldubólusetningar en um 69% landsmanna eldri en 12 ára eru fullbólusett.

Olaf Scholz, fjármálaráðherra og verðandi kanslari Þýskalands.
Olaf Scholz, fjármálaráðherra og verðandi kanslari Þýskalands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert