Belgísk yfirvöld hafa tilkynnt um fyrsta smitið í Evrópu af völdum nýs afbrigðis kórónuveirunnar. AFP-fréttastofan greinir frá þessu.
Nýja afbrigðið, B.1.1.529 sem þegar hefur greinst í sunnanverðri Afríku, er af vísindamönnum í Bretlandi talið það versta hingað til og það gæti jafnvel fundið sér leið framhjá áður áunnu ónæmi við veirunni.
Að sögn Franks Vandenbroucke, heilbrigðisráðherra Belgíu, greindist smitið 22. nóvember og hafði sá sem smitaðist ekki áður fengið Covid-19.
Sá smitaði er sagður hafa komið heim til Belgíu frá Egyptalandi 1. nóvember.