Söngleikjaskáldið Stephen Sondheim látinn

Sondheim fékk forseta-orðu Bandaríkjanna árið 2015 fyrir störf sín í …
Sondheim fékk forseta-orðu Bandaríkjanna árið 2015 fyrir störf sín í þágu tónlistarinnar. AFP

Hið goðsagnakennda söngleikjaskáld Stephen Sondheim lést í dag 91 árs að aldri. Lögfræðingur Sondheims segir við New York Times að hann hafi látist skyndilega á heimili sínu í Roxbury, Connecticut, daginn eftir að hann fagnaði þakkargjörðarhátíðinni með vinum.

Sondheim er viðurkenndur fyrir að hafa gjörbylt bandarísku tónlistarleikhúsi en hann samdi meðal annars hinn víðfræga söngleik „West Side Story“.

Hlaut frelsismedalíu frá forseta Bandaríkjanna

Sondheim fæddist 22. mars 1930 í New York Borg og tók þátt í söngleikjum frá unga aldri. Hann byrjaði að spila á píanó aðeins sjö ára og var fjölskylduvinur Oscars Hammersteins II, annar af tveimur í söngleikjatvíeyki Rodgers og Hammersteins, sem sömdu meðal annars söngleikina „Oklahoma!“ og „The Sound of Music“.

Á áratugalöngum ferli sínum vann Sondheim til átta Grammy-verðlauna, átta Tony-verðlauna, þar á meðal fyrir æviafrek sín í leikhúsum, og einna Óskarsverðlauna. Hann var tilnefndur til fleiri Grammy- og Tony-verðlauna, auk tvennra Golden Globe-verðlauna.

Árið 2015 afhenti þáverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, Sondheim frelsisorðu Bandaríkjaforseta fyrir störf sín í þágu tónlistar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert