Bretar hafa hert reglur um komur farþega til landsins vegna nýja Ómíkron-afbrigðsins, en tveir hafa greinst smitaðir af því í Bretlandi í dag. Þá verður grímuskylda tekin upp að nýju vegna afbrigðisins.
Hafa Bretar einnig bætt fjórum löndum í sunnanverðri Afríku, Malaví, Mósambík, Zambía og Angóla, á svonefndan „rauðan lista“, en fyrir á listanum voru Suður-Afríka, Namibía, Lesótó, Eswatíni, Zimbabwe og Botswana.
Boris Johnson forsætisráðherra kynnti hinar nýju reglur í sjónvarpsávarpi nú í kvöld. Boðaði hann þar að grímuskylda yrði aftur tekin upp í búðum og í almenningssamgöngum í Bretlandi, en hún var felld úr gildi í júlí síðastliðnum ásamt umdeildu útgöngubanni.
Johnson sagði að ekki væri til skoðunar nú að taka upp útgöngubann, en að reglurnar yrðu endurskoðaðar eftir þrjár vikur. Sagði hann jafnframt vonast til að Bretar gætu haldið gleðilegri jól en í fyrra.
Johnson sagði einnig að nú þyrfti að taka upp skimanir á komufarþegum til Bretlands, sama hvaða þeir kæmu. Því munu allir sem koma til Bretlands þurfa að taka PCR-próf innan tveggja daga frá komu til landsins, og þeir þurfa að vera í sóttkví þar til þeir fá neikvæða niðurstöðu úr því prófi.
Hingað til hafa komufarþegar þurft að skila inn annað hvort PCR-prófi eða svonefndu hraðprófi, en nú verða þær reglur hertar. Þá hafa komufarþegar ekki þurft að hlíta sóttkví þar til niðurstaða þess liggur fyrir. „Ég vona að við verðum áfram í sterkri stöðu og getum aflétt þessum aðgerðum aftur,“ sagði Johnson. „En þessa stundina er þetta ábyrg afstaða.“