Réttarhöld yfir Maxwell að hefjast

Samsett mynd af Maxwell og Epstein.
Samsett mynd af Maxwell og Epstein. AFP

Réttarhöld yfir Ghislaine Maxwell, sem er ákærð fyrir að útvegað auðjöfrinum Jeffrey Epstein stúlkur undir lögaldri sem hann níddist síðan á, hefjast á mánudaginn.

Maxwell, sem er 59 ára dóttir fjölmiðlamógúlsins sáluga Roberts Maxwell, á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hún fundin sek í New York fyrir mansal. Epstein, fyrrverandi elskhugi hennar, framdi sjálfsvíg í fangelsi fyrir tveimur árum síðan.

Maxwell var handtekin í júlí á síðasta ári. Hún hefur setið í gæsluvarðhaldi í Brooklyn þar sem hún hefur kvartað yfir óþrifnaði og ómannúðlegum aðstæðum.

Meintir glæpir Maxwell gerðust á árunum 1994 til 2004 og tengjast fjórum ónafngreindum konum, þar á meðal tveimur sem segjast hafa verið aðeins 14 og 15 ára þegar þær voru kynferðislega misnotaðar.

Dómshúsið í New York þar sem réttarhöldin fara fram.
Dómshúsið í New York þar sem réttarhöldin fara fram. AFP

Saksóknarar segja að Maxwell hafi vingast við stúlkurnar með því að fara með þeim í verslunarferðir og í bíó og síðar fengið þær til að nudda Epstein er þær voru naktar á hinum ýmsu heimilum hans. Á meðan á þessu stóð braut hann á þeim kynferðislega og gaf þeim síðan peninga.

Lögmenn bandarískra stjórnvalda segja að Maxwell hafi stundum tekið þátt í athæfinu á heimili hennar í London og á heimilum Epsteins á Manhattan, Palm Beach og í Nýju-Mexíkó.

Epstein lést 66 ára gamall í fangelsi á Manhattan árið 2019 er hann beið réttarhalda vegna ákæru um mansal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert