Stjórnvöld í Suður-Afríku segja ríkinu vera „refsað“ fyrir að hafa greint nýtt afbrigði kórónuveirunnar, Ómíkrón, en mörg ríki hafa varað við ferðalögum til sunnanverðrar Afríku vegna veldisvaxtar afbrigðisins á því svæði.
Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti landsins segir að með ferðatakmörkunum sé verið að refsa Suður-Afríku fyrir háþróaða erfðafræðilega raðgreiningu og getu til að greina ný afbrigði hratt.
„Frábærum vísindum ber að fagna, ekki refsa,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá er bent á að ný afbrigði hafi greinst á mörgum stöðum í heiminum. „Öll þessi afbrigði hafa engin tengsl við Suður-Afríku, en viðbrögðin við þeim eru allt önnur en afbrigðinu í Suður-Afríku.“
Suður-afrísk stjórnvöld segjast vera í stakk búin til þess að takast á við Ómíkrón-afbrigðið og því þurfi önnur ríki ekki að hafa áhyggjur.
Tæplega þrjár milljónir hafa greinst með kórónuveiruna í Suður-Afríku og um 90 þúsund hafa látist síðan faraldurinn hófst.