Alþjóðasamfélaginu stafar mikil hætta af Ómíkron

Farþegi á alþjólega flugvellinum í Kúala Lúmpúr með grímu kyssir …
Farþegi á alþjólega flugvellinum í Kúala Lúmpúr með grímu kyssir barn í kveðjuskyni. Flug og ferðalög víða um heim hafa riðlast vegna nýs afbrigðis Covid-19. AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir alþjóðasamfélaginu stafa mikla hættu af Ómíkron-afbrigðisins en mikil óvissa ríkir um hve smitandi og hættulegt afbrigðið er.

„Ef að önnur stór bylgja af Covid-19 mun eiga sér stað, sem verður drifin áfram að Ómíkron-afbrigðinu, þá gætu afleiðingarnar verið alvarlegar,“ sagði í tilkynningu WHO. Þar kom þó einnig fram að til þessa dags hafa engin dauðsföll verið skráð af völdum afbrigðisins.

Áður hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin flokkað Ómíkron sem afbrigði er veldur verulegum áhyggjum. 

Heilbrigðisráðherrar G7-ríkjanna funduðu í morgun vegna Ómíkron-afbrigðisins, en sífellt fleiri tilfelli hafa greinst innan Evrópu um helgina. Fyrsta smitið greindist í Suður-Afríku og virðist útbreiðslan vera mest um sunnanverða Afríku. 

Hertari aðgerðir við landamærin

Mörg lönd hafa gripið til hertari aðgerða við landamærin í von um að hefta útbreiðslu afbrigðisins, þar á meðal Ísland. Nú verða allir ferðalangar sem dvalið hafa á hááhættusvæðum síðastliðnar tvær vikur gert að fara í PCR-próf við komuna til landsins og sæta fimm daga sóttkví, sem mun ljúka með öðru PCR-prófi.

Þá hafa ýmis lönd gripið til þeirra ráðstafana að banna flug frá ákveðnum ríkjum í sunnanverðri Afríku, m.a. Bretland, ESB og Bandaríkin, og enn önnur lönd lokað landamærum sínum.

Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, hefur fordæmt ferðabannið og kveðst hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert