Rafmagnsverð hefur aldrei verið hærra í suðurhluta Noregs. Fram kemur á fréttavefnum E24 að verðið muni hækka í dag, en það var 1,87 norskar kr. á hverja kílóvattsstund en meðalverðið frá og með deginum í dag verður um 2,56 norskar kr. á kílóvattstund, sem jafngildir um 37 íslenskum krónum.
Tekið er fram að upphæðin er án allra skatta og aukagjalda. Þegar þeim er bætt við þá munu margir í suðurhluta Noregs þurfa að greiða alls á bilinu 5-6 norskar krónur fyrir hverja stund frá og með deginum í dag.
Sérfræðingar segja að þessi ákvörðun hafi ekki komið á óvart, þrátt fyrir að þarna hafi hækkunin verið heldur mikil. Þættir sem hafa áhrif á hækkunina eru m.a. mikill kuldi, logn og almennt mjög hátt raforkuverð í Evrópu.
Fram kemur að raforkan í Noregi sé dýruast á milli kl. 17 og 18 síðdegis. E24 segir að þeir sem ætli sér í 10 mínútna sturtuferð - með almennilegum sturtuhaus - á þeim tíma megi reikna með að greiða um 26 norskar krónur fyrir sturtuferðina, sem jafngildir um 377 kr.