Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO sagði í dag að almennt ferðabann myndi ekki stöðva útbreiðslu Ómíkron-afbrigðisins en fólk í áhættuhópum, þar með talið fólk yfir sextugt, ætti að fresta áætlunum um að ferðast til útlanda.
Ómíkron, nýtt afbrigði kórónuveirunnar sem stofnunin hefur sagt að feli í sér „mjög mikla“ áhættu á heimsvísu, hefur orðið til þess að mörg lönd hafa lokað landamærum sínum.
„Almenn ferðabönn munu ekki koma í veg fyrir alþjóðlega útbreiðslu og þau leggja mikla byrði á líf og lífsviðurværi,“ sagði stofnunin í yfirlýsingu í dag.
„Að auki geta þau haft slæm áhrif á alþjóðlegt heilbrigðisstarf á meðan á heimsfaraldri stendur með því að hindra lönd frá því að tilkynna og deila faraldsfræðilegum gögnum og raðgreiningargögnum.“
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sagði að frá og með sunnudeginum hefðu 56 lönd innleitt ferðabönn sem miða að því að hugsanlega seinka innflutningi nýja afbrigðisins.
„Það er búist við að Ómíkron afbrigðið muni finnast í auknum fjölda landa eftir því sem innlend yfirvöld auka eftirlit sitt og raðgreiningu,“ sagði stofnunin.
Stofnunin ráðleggur því þeim sem eru í áhættuhópum og eiga í hættu á að veikjast alvarlega af Covid-19, þar á meðal fólki yfir sextugt eða þeir sem eru með fylgisjúkdóma, t.d. hjartasjúkdóma, krabbamein og sykursýki, að fresta ferðum.