Evrópusambandið verður að íhuga að koma á bólusetningarskyldu til að sporna við útbreiðslu hins nýja Ómíkron afbrigðis kórónuveirunnar um álfuna. Þetta segir Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en hún ræddi við blaðamenn í Brussel í dag. The Guardian greinir frá.
Hún sagði mjög mikilvægt að í aðildarlöndunum væri fólk boðað sem allra fyrst í örvunarbólusetningu og að ferðalangar væru beðnir um að framvísa neikvæðu PCR-prófi áður en þeir kæmu til aðildarlandanna.
Aðspurð hvort hún styddi aðgerðir grískra yfirvalda þar sem fólk 60 ára og eldra er sektað ef það lætur ekki bólusetja sig, sagði hún að að hröð útbreiðsla veirunnar og dræm mæting í bólusetningu á sumum svæðum innan sambandsins þýddi að alvarlega þyrfti að íhuga bólusetningarskyldu.
Von der Leyen, sem er læknir að mennt og starfaði sem læknir áður en pólitískur ferill hennar hófst, sagði við blaðamenn að ef hún hefði verið spurð álits fyrir tveimur eða þremur árum hefði svarið líklega verið annað. „Ég bjóst aldrei við því að við myndum upplifa það sem við gerum núna þegar við stöndum frammi fyrir þessum hræðilega faraldri,“ sagði hún og bætti við: „Það er bóluefni til staðar, bóluefni sem bjargar mannslífum, en það er ekki nýtt sem skyldi allsstaðar. Það hefur afleiðingar, það hefur gríðarlegar heilsufarslegar afleiðingar.“
Hún benti á að 77 prósent fullorðinna í aðildarlöndum ESB væru nú bólusett. Það væru um 66 prósent af öllum íbúum sambandsins.
„Það þýðir að einn þriðji af íbúum sambandsins er ekki bólusettur. Það eru 150 milljón manns. Það er mikið og það geta ekki allir þegið bólusetningu, börn til að mynda og fólk með sérstakar læknisfræðilegar ástæður. En meirihlutinn getur þegið bólusetningu og þess vegna er þessi umræða mjög eðlileg og viðeigandi núna,“ sagði hún og vísaði þar til sífellt háværari umræðu um bólusetningarskyldu.
Yfirvöld í Austurríki hafa nú þegar gefið út að frá og með 1. febrúar næstkomandi verði komið á bólusetningarskyldu í landinu. Verðandi kanslari Þýskalands, Olaf Scholz, hefur einnig sagt að hann styðji slíkar hugmyndir. Þá hafa yfirvöld í Grikklandi, líkt og áður sagði, ákveðið að sekta fólk yfir sextugu sem lætur ekki bólusetja sig.