15 ára ákærður sem fullorðinn

Fjórir nemendur létust í árásinni.
Fjórir nemendur létust í árásinni. AFP

Unglingurinn sem myrti fjóra og særði sjö í skotárás í menntaskóla í Michigan, var í gær ákærður sem fullorðinn einstaklingurinn vegna árásarinnar. Sakborningurinn, hinn 15 ára Ethan Crumbley, kveðst þó saklaus.

Frá þessu er greint á vef BBC.

Karen McDonald, saksóknarinn í málinu, sagði ofgnótt af stafrænum gögnum sýna að Crumbley hafi skipulagt árásina vel fyrir atvikið. Þar á meðal myndskeið, sem var tekið kvöldið fyrir árásina, þar sem sakborningurinn ræðir hvernig hann ætlar sér að myrða nemendurna.

Þetta var ekki gert af hvatvísi, þetta var gert að yfirveguðu ráði, sagði McDonald.

Þeir sem létust voru nemendur á aldrinum 14 til 17 ára. Þá særðist einn kennari en hinir sex sem særðust voru nemendur.

24 ákæruliðir

Ákæran, sem telur að minnsta kosti 24 ákæruliði, kveður á um hryðjuverk, morð af fyrstu gráðu, líkamsárásir með ásetningi til morðs og skotvopnaeign.  

Crumbley verður fluttur úr unglingafangelsi og í héraðsfangelsi þar sem hann verður vistaður. Sakborningurinn hefur hingað til ekki sýnt samstarfsvilja og hefur hann neitað að tjá sig við rannsakendur.

Crumbley hefur ekki áður komist í kast við lögin og ekkert bendir til þess að hann hafi verið fórnarlamb eineltis. Hins vegar hefur komið til þess að kalla þurfti á foreldra í skólanum vegna óviðeigandi hegðunar í kennslustofunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert