Tuttugu og fimm starfsmenn og sex viðskiptavinir IKEA í Álaborg, í Danmörku, urðu strandaglópar í versluninni síðdegis í gær og enduðu á að þurfa eyða nóttinni þar.
Snjóstormur reið yfir norðanvert Jótland í gær og urðu margir vegir ófærir í og við Álaborg. Lögreglan réði því fólki frá því að vera á ferðinni sem varð til þess að 31 manns urðu innlyksa í IKEA versluninni umræddu, að því er danskir fréttamiðlar greina frá.
„Mér datt ekki í hug að dagurinn minn myndi enda svona þegar ég keyrði í vinnuna í morgun,“ segir Peter Elmose, verslunarstjóri IKEA í Álaborg, í samtali við Nordjyske.
Strandaglóparnir hafi þó reynt að gera gott úr aðstæðum með því að koma saman í mötuneyti starfsfólksins þar sem þeir horfðu á bæði jólamynd og fótboltaleik til að stytta sér stundir, að sögn Elmose.
„Starfsfólkið í eldhúsinu bauð öllum upp á heitt súkkulaði, risalamande, sætabrauð, gosdrykki, kaffi og bjór,“ bætti hann við.
Síðan hafi verið búið um næturgestina í sýningarsal verslunarinnar þar sem nóg var af rúmum. Skipt var á öllum rúmum sem sofið var í áður en verslunin var opnuð aftur í morgun, að því er talsmaður IKEA greindi frá.
Á sama tíma sátu um 300 manns fastir á flugvellinum í Álaborg þar sem öllum flugum hafi verið frestað vegna veðursins. Þar hafi þó ekki verið boðið upp á jafn góða gistiaðstöðu og hjá IKEA.
„Við höfum dreift teppum til fólks þar sem við gerum ráð fyrir því að það þarf að eyða nóttinni hér,“ sagði Kim Bermann, rekstrarstjóri flugvallarins, í samtali við Nordjyske.