Reyndu að finna ósamræmi í frásögn Jane

Á þessari teikningu úr dómsal sést Ghislaine Maxwell á miðri …
Á þessari teikningu úr dómsal sést Ghislaine Maxwell á miðri mynd ásamt tveimur lögregluþjónum. AFP

Verjendur Ghislaine Maxwell, sem er fyrrverandi samstarfskona og kærasta barnaníðingsins Jeffrey Epstein, hafa reynt að finna ósamræmi í frásögn og vitnisburði konu sem leikur lykilhlutverk í máflutningi ákæruvaldsins, en aðalmeðferð í máli Maxwell hélt áfram í dag.

Konan, sem er aðeins nefnd á nafn sem Jane, heldur því fram að Maxwell og Epstein hafi brotið kynferðislega gegn sér þegar hún var 14 ára gömul. Fjórar konur hafa sakað Epstein og Maxwell um brot og er Jane sú fyrsta sem gefur skýrslu við réttarhöldin.

Laura Menninger, verjandi Maxwell, lagði í dag fram gögn frá árinu 2019 sem eiga að benda til þess að Jane hafi verið óviss hvað varðar þátttöku Maxwells, þ.e. hvort hún hafi verið á staðnum eða snert eða kysst hana.

Maxwell sést hér horfa á bróður sinn Kevin Maxwell við …
Maxwell sést hér horfa á bróður sinn Kevin Maxwell við réttarhaldið í dag. AFP

Jane lýsti meintum brotum á afar opinskáan hátt við vitnaleiðslurnar í dag, en hún segir að brotin hafi verið framin á árunum 1994 til 1997. Jane sagði að Maxwell hefði oftast verið viðstödd og hefði sömuleiðis ekkert verið að kippa sér upp við þessar athafnir.

Jane neitaði því, þegar hún svaraði spurningum verjendanna, að hún hefði breytt framburði sínum og hún gerði ennfremur athugasemdir við þau gögn sem lögmenn Maxwells lögðu fram. Jane tók einnig fram að vitnisburður hennar á umræddum tíma hefði aldrei verið tekinn upp.

Þá táraðist Jane þegar hún lýsti því hvernig það hefði verið við upphaf málsins að segja lögreglumönnum frá sínum dýpstu og erfiðustu leyndarmálum sem hún skammaðist sín fyrir og burðast með allt sitt líf.

Þá neitaði Jane því að hún væri að nýta sína reynslu sem leikkona í sápuóperum til að krydda  vitnisburðinn. Hún sagði ennfremur að hún hefði engan fjárhagslegan ávinning af því að stíga fram til að bera vitni.

AFP

Ákæran á hendur Maxwell er í átta liðum, þar af sex sem tengjast mansali og kynferðislegri misneytingu frá 1994 til 2004. Maxwell hefur neitað ásökunum um mansal í kynferðislegum tilangi. Hún hefur setið á bak við lás og slá frá því hún var tekin höndum í fyrra í Bandaríkjunum. Verði hún fundin sek gæti hún átt yfir höfði sér 80 ára fangelsi. Verjendur hennar halda því fram að verið sé að nota hana sem blóraböggul fyrir þá glæpði sem Epstein framdi.

Ákæruvaldið heldur því aftur á móti fram að þau beri sameiginlega ábyrgð á þeim kynferðisbrotum sem voru framin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert