Saksóknarar í máli á hendur Ghislaine Maxwell, fyrrverandi kærustu og samstarfskonu barnaníðingsins Jeffrey Epstein, færðu alræmdan nuddbekk Epsteins inn í dómssalinn í gær og leyfðu honum að standa þar á meðan réttarhöldin fóru fram. Epstein og Maxwell eru sögð hafa brotið á unglingsstúlkum kynferðislega undir því yfirskyni að þær ættu einungis að veita Epstein nudd.
Guardian greinir frá.
Þá opinberuðu saksóknarar í málinu það einnig að fyrir utan svefnherbergi Epsteins í stórhýsi hans í Palm Beach hafi hangið kynferðisleg mynd af mjög ungri stúlku. Þá fundust „skólastelpu“ búningar við leit á heimili Epsteins í Manhattan. Búningarnir voru staðsettir í sama herbergi og nokkrar konur segjast hafa verið misnotaðar í þegar þær voru á barnsaldri.
Epstein tók eigið líf í fangelsi í ágústmánuði árið 2019 þegar hann beið eftir réttarhöldum.
Maxwell var handtekin í júlímánuði í fyrra vegna ásakana um að hafa tekið þátt í brotum Epsteins. Hún neitar því að hafa gert slíkt.