Flogið var með jarðneskar leifar srílanksks verksmiðjueiganda í dag til Srí Lanka frá Pakistan, þar sem hann var myrtur af starfsmönnum sínum vegna gruns um guðlast af hans hálfu.
Verksmiðjueigandinn, Priyantha Diyawadana, var myrtur síðastliðinn föstudag í Punjab-héraði um 200 kílómetrum frá höfuðborg Pakistan, Islamabad.
Lögregla í Pakistan hefur nú þegar handtekið 131 vegna málsins, þar af 26 sem taldir eru eiga stóran þátt í málinu. Þeir sitja nú enn í varðhaldi.
Verksmiðjueigandinn var barinn til ólífis og síðan kveikt í líkinu að honum látnum. Myndbönd voru tekin af atvikinu sem hafa síðan farið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Þar reyna fæstir árásarmanna að hylja andlit sitt og má meira að segja sjá suma þeirra taka sjálfur af sér og brennandi líkinu.
Heimildir AFP herma að verksmiðjueigandinn hafi verið „nokkuð strangur“ við starfsfólk sitt og að hann hafi rifið niður veggspjöld með trúarlegum skilaboðum og hent í ruslið.
Ofbeldi vegna guðlasts er vel þekkt í Pakistan þar sem gjarnan spretta upp illdeilur vegna trúarlegs ágreinings, sem oft enda í illu eins og í þessu tilfelli.
Árásin á verkjsmiðjueigandann hefur vakið óhug og ágreining í Pakistan og Imran Khan forsætisráðherra sagði föstudaginn hafa verið „dag skammar“ í landinu. Hann hyggst veita heiðursorðu manni sem sést á áðurnefndu myndbandi reyna að stöðva ofbeldið. Hann stefndi þannig eigin lífi í hættu við að bjarga öðrum að sögn Khans.