Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimir Pútín, forseti Rússlands, funduðu í dag í gegnum fjarfundabúnað um ástandið við landamæri Rússlands og Úkraínu. Biden varaði Pútín við því að Bandaríkin myndu svara fullum hálsi ef Rússar myndu ráðast inn í Úkraínu.
Fundurinn stóð í tvær klukkustundir en rússneski herinn hefur margfaldað þann fjölda hermanna sem standa vaktina við landamærin. Pútín segir þetta svar við ógnunum frá yfirvöldum í Kænugarði.
Eftir fundinn greindi yfirmaður öryggismála, Jake Sullivan, fjölmiðlum frá því að Bandaríkin væru að leggja á ráðin á hvaða hátt þeir myndu svara Rússum ef til átaka kæmi.
„Við erum tilbúin að ganga lengra en við gerðum árið 2014,“ sagði Jake og vísaði þar til innrásar Rússlands í Krímskaga og svars vestrænna ríkja við þeirri innrás.
Sullivan vildi ekki greina frá því í fjölmiðlum hvers kyns aðgerðum vestræn ríki væru tilbúin til að beita heldur vildu Bandaríkin fremur beina þeim upplýsingum beint til rússneskra yfirvalda.
Þá sagði hann Nord Stream 2-gasleiðsluna sem liggur frá Rússlandi til Þýskalands veita vestrænum ríkjum ákveðið vogarafl.
„Ef Pútín vill að gas flæði í gegnum þá leiðslu og til Þýskalands ætti hann ekki að taka þá áhættu að ráðast inn í Úkraínu,“ sagði Jake en BBC segir þýsk yfirvöld hafa heitið því að skrúfa fyrir leiðsluna geri Rússar innrás í Úkraínu.