Svíar hyggjast herða sóttvarnaaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins í varúðarskyni en fram að þessu hafa þeir sloppið vel í yfirstandandi bylgju faraldursins.
Meðal annars munu Svíar þurfa að sýna fram á bólusetningarpassa þegar þeir sækja veitingastaði og líkamsræktarstöðvar líkt og þeir hafa þurft að gera á 100 manna viðburðum sem haldnir hafa verið innandyra síðan 1. desember síðastliðinn, að því er Magdalena Andersson forsætisráðherra greindi frá á blaðamannafundi í dag.
Ekki hefur verið ákveðið hvenær hinar nýju reglur munu taka gildi en það verður líklega á næstu vikum. Passinn umræddi veitir sönnun þess að handhafar hans séu fullbólusettir, að því er fréttastofa AFP greinir frá.
Þá hefur einnig verið mælt með því að þeir sem geta vinni fjarvinnu frá og með morgundeginum, sem og að fjarlægðar takmarkanir verði viðhafðar þar sem hægt er og andlitsgrímur notaðar þar sem það er ekki hægt.
Frá upphafi faraldursins hafa 15 þúsund manns látið lífið af völdum veirunnar í Svíþjóð sem er nálægt meðaltali dauðsfalla af völdum veirunnar í öðrum Evrópulöndum.
Hlutfall dauðsfalla af völdum veirunnar er þó talsvert hærra í Svíþjóð en í nágrannalöndunum Noregi, Finnlandi og Danmörku.
Þrátt fyrir tilkomu Ómíkron-afbrigðisins hafa Svíar engin áform um að breyta nálgun sinni í baráttunni gegn veirunni sem hefur virkað vel fram að þessu, að því er Anders Tegnell sóttvarnarlæknir, greindi frá í samtali við fréttastofu AFP í síðustu viku.
Þótt smitum fari nú fjölgandi er fjöldi covid-smita og dauðsfalla af völdum veirunnar í Svíþjóð með því lægsta í Evrópu um þessar mundir en færri en 15 þúsund ný tilfelli veirunnar hafa greinst í þessari viku og færri en 26 látið lífið vegna veirunnar.